Aðstaðan
Náttúran er í raun eina aðstaðan sem Náttúruskólinn þarf. Við höfum þó aðgengi að alls konar aðstöðu, skálum, skógarrjóðrum og tjöldum, sem hefur aukið enn frekar á ævintýrin.

Óbyggðasetrið
Rætur Náttúruskólans liggja djúpt og fallega í Fljótsdalnum og segja má að skólinn sé í raun sprottinn þaðan. Óbyggðasetrið stendur í botni Fjótsdals í um klukkustunda akstursfjarðlægð frá Egilsstöðum. Þar er boðið uppá gistingu og veitingar, hægt að bregða sér í baðhúsið og láta líða úr sér í heitum potti og skoða sýningu um sögu óbyggðanna og ábúenda þeirra.
Frá upphafi skólans hefur verið samstarf á milli Óbyggðasetursins í Fljótsdal og Náttúruskólans. Þar höfum við haldið kennaranámskeið, fjölskylduhelgar, Útipúkaævintýri, jólastundir, átt ógleymanlegar stundir með í ungmennaskiptaverkefnum Erasmus+ og tekið á móti skólahópum.

Laugarfell
Óbyggðasetrið rekur gistiaðstöðu í Laugarfelli við rætur Snæfells um 75 km frá Egilsstöðum, þar er hálendiskyrrð og fögur fjallasýn. Í Laugarfelli er notaleg gistiaðstaða, rúmgóður salur, veitingarsala og tjaldstæði að ógleymdum náttúrulaugunum hlýju og notalegu. Skólinn hefur nýtt aðstöðuna í Laugafelli fyrir ýmiskonar lengri verkefni s.s. ævitýrahelgar fyrir börn og hálendisleiðangra fyrir ungmenni. Fossagönguleiðinum 16 km falleg og fjölbreytt gönguleið liggur frá Óbyggasetri, upp með Jökulsá í Fljótsdal og upp í Laugarfell. Þá gönguleið höfum við óspart nýtt fyrir ungmennahópa, hvoru tveggja íslenska hópa í eldri bekkjum grunnskóla og á framhaldskólastigi og í hinum ýmsu ungmennaskiptaverkefnum og jafnan hvílt lúin bein í Laugarfelli ýmist í tjöldum eða innandyra.

Rjóður í Blöndalsbúð
Félagsheimili Skógræktarfélags Austurlands Blöndalsbúð í Eyjófsstaðaskógi á Völlum stendur í um 15 mínútna akstursfjarðlægð frá Egilsstöðum. Þangað heimsækja jafnan yngri bekkir grunnskólanna Náttúruskólann, nýta skóginn, varðeldarjóðrið og lækinn óspart til náms og gleði. Það höfum við einnig boðið uppá ævintýrahelgar fyrir börn.

Náttúruskólarjóðrið í Hallormsstaðaskógi
Náttúruskólinn hefur í samstarfi við Skógræktina á Hallormsstað komið sér um notalegu og kyrrlátu rjóðri í skóginum. Þar höfum við gjarnan tekið á móti nemendum á unglingastigi grunnskólanna og átt lærdómsríkan skóladag í skóginum.

Víknaslóðir
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur þrjá ferðafélagsskála á hinni undirfögru gönguleið um Víknaslóðir þar sem farið eru um eyðivíkur milli Borgarfjarðareystri og Loðmundarfjarðar. Náttúruskólinn hefur nýtt þessa náttúruparadís í lengri ferðir með ungmenni, bæði íslenska hópa framhaldsskólanema og í ungmennaskiptaverkefnum

Skátarjóðrið í Selskógi
Í útjaðri Egilsstaða stendur útivistarparadísin Selskógur og þar byggðu Héraðsbúar skátafélagið sem starfrækt var hér um skeið upp skemmtilegt rjóður með skýlum og varðeldaaðstöðu. Það rjóður sem og skóginn allan hefur skólinn nýtt óspart einkum í útivistarnámskeiðinu Útipúkum sem haldið er í samstarfi við ungmennafélagið Þristinn.

Skálanes
Skálanes er náttúruparadís við mynni Seyðisfjarðar þar er rekið náttúru- og menningarsetur og starfrækt vísindaleg rannsóknarstöð á því sviði, gistiaðstað er í húsinu. Fuglalíf er afar fjölbreytt í kringum Skálanes og gjarnan hreindýr á vappi. Ríflega klukkustundarlangur akstur er að Skálanesi frá Egilsstöðum en fara þarf yfir óbrúaðar ár síðasta spölinn og sá leggur er ekki öllum bílum fær, en einnig er hægt að ganga síðasta spottann um 5 km. Skólinn hefur nýtt Skálanes fyrir náttúruskoðunarferðir, haldið þar náttúrulistasmiðjur og ævintýrahelgar fyrir börn.

Snæfellsskáli
Snæfellsskáli stendur innan Vatnajökulsþjóðgarðs við rætur Snæfells í um 1,5 klst aksturfjarðlægð frá Egilsstöðum. Þar rekur þjóðgarðurinn gistiaðstöðu auk þess sem boðið er uppá fræðslu og leiðsögn landvarða. Þó aðeins sé fært í skálann yfir sumartímann þá hefur Náttúruskólinn nýtt aðstöðuna þar fyrir lengri leiðangra ungmenna á framhaldsskólastigi og í ungmennaskiptaverkefnum enda víðernin þar dásamlegt, Brúarjökull innan seilingar og svo auðvitað Snæfellið sjálft.
