top of page

Exploring our Roots - Spánarferð


ree

Náttúruskólinn ásamt spænsku ungmennasamökunum ARAM Asociación por la Resiliencia del Alto Mijares standa nú fyrir Erasmus + ungmennaskiptaverkefninu Exploring our Roots.

Markmið verkefnisins er að gefa ungmennum færi á að vinna með sjálfbærni og hringrásarhagkerfi frá ýmsum hliðum, kynna sér gildismat, nægjusemi og verklag genginna kynslóða og hvað við getum lært af formæðrum okkar og -feðrum í þeim efnum.


Af því tilefni héldu tíu austfirsk ungmenni, ásamt þremur kennurum Náttúruskólans til fjallaþorpsins Cirat norðarlega á Spáni, og dvöldu þar í viku við leik og störf.

Íslenski hópurinn fékk kónunglegar mótttökur þegar komið var til Cirat en þar biðu spænskir félagar þeirra í ofvæni.

Spænski hópurinn er afar fjölþjóðlegur og samanstendur að miklu leyti af ungmennum sem hafa flust til Spánar víðsvegar að úr heiminum, sem innflytjendur eða flóttafólk. Íslenski hópurinn fékk því að kynnast siðum, menningu og trúarbrögðum víða að, matarvenjur múslima eru til að mynda nokkuð sem við sveitakrakkar frá Íslandi þekktum lítið til og var fróðlegt að læra um. Þó að margt sé ólíkt og framandi þá erum við öll manneskjur og það fór vel á með fjölbreytta hópnum okkar strax frá upphafi.


ree

Hópefli, leikir og skoðunarferðir um svæðið skipuðu stóran sess í dagskránni fyrsta daginn, veðrið lék við ungmennin sem hikuðu ekki við að dýfa sér í ána til að kæla sig milli dagskrárliða.

Hópurinn fékk svo að kynnast nýrri á, náið daginn eftir en þá var haldið til nágrannaþorpsins Montanejos þar sem unnið var með hugrekki og tengsl við náttúruöflin með því að fara í flúðasiglingu. Eftir viðeigandi busl, skræki og flúðafjör var haldið í ratleik um þorpið og tekist, í sameiningu, á við hinar ýmsu þrautir. Dagurinn endaði svo á landkynningu frá íslenska hópnum þar sem íslenkst sælgæti og slagarar féllu vel í kramið hjá gestgjöfum okkar.


ree

Þriðji dagur hópsins í Cirat var vel nýttur í að kynnast sögu og menningu bæjarins, læra um verkhefðir og vinnubrögð genginna kynslóða í bænum. Hópurinn heimsótti þvottalaug

bæjarins þar sem konur komu saman til að þvo föt, kíkt var á safn sem varðveitir sögu svæðisins og farið í bakarí þar sem annarsvegar var hægt að kaupa bakkesli en jafnframt hægt að fá að bregða eigin brauði og öðru góðgæti í ofninn, það þurfa nefnilega ekki allir að eiga allt ef fólk er tilbúið að hjálpast að og deila og í þessu tilviki virtist það gefast ljómandi vel. Dagurinn endaði svo á leikþáttagerð með tilheyrandi sýningum og sköpun, tilþrifin voru satt best að segja umtalsverð.


Fjórða dag verkefnisins reyndi á græna fingur. Spænsku samtökin, sem við vinnum þetta verkefni með, starfa gjarnan í brothættum byggðum við að efla í sjálfbærar og vistvænar lausnir i smærri og afskettari samfélögum. Hópurinn fékk að kynnast því starfi og því næst að spreyta sig á að rækta sinn eigin matjurtargarð, okkar fólk gróðursetti maís, baunir og graskersfræ af miklum móð og bíða svo spennt frétta frá spænskum félögum sínum hvernig uppskeran verður í haust.


ree

 Seinnipartur dagsins fór í að skapa samfélag úr leir án þess að segja eitt einasta orð við hópfélagana. Einnig velti hópurinn fyrir sér gæðum samfélags, auðlindum og réttlátri skiptingu þeirra og hvernig sé að flytjast inní nýtt og framandi samfélag, nokkuð sem vinir okkar úr spænska hópnum þekkja vel af eigin raun enda er hópurinn fjölþjóðlegur og mörg sem þekkja áskoranir innflytjenda af eigin raun.


Síðasti dagur verkefnisins verður sennilega lengi í minnum hafður. Hann byrjaði á gönguferð að 1000 ára gömlum kastalarústum. Svo var farið að fossi sem bærinn Cirat er þekktur fyrir. Íslendingunum fannst fossin heldur vatnslítil en skemmtu sér að því að hoppa út í hylinn. Á leiðinni heim bárust fregnir um það að allur Spánn væri rafmagnslaus og skömmu síðar var lýst yfir neyðarástandi í landinu. Þó verkefnið gangi að hluta út á að lifa sig inní og temja sér nægusemi og gildismat fyrri kynslóða þá varð þetta nú mögulega að teljast full vaskleg framganga í þeim efnum. Þessar heimsfréttir höfðu þó ekki mikil áhrif hvorki á dagskrána né krakkana sem héldu jafnvægi sínu í bókstaflegri merkingu. Þessa viku sem hópurinn dvaldi í Cirat stóð nefnilega yfir jafnvægislínuhátið í þorpinu og fengu krakkarnir að spreyta sig í þeitrri list.

Í lok dags var þessi hluti verkefnisins gerður upp og línurnar lagðar að næsta ævintýri sem verður heimsókn spænska hópsins til Íslands. Um kvöldið var svo haldið lokahóf þar sem var leikið og sungið við kertaljós. Áhrifa rafmagnsleysisins gætti þó fyrir alvöru morguninn eftir en þá kárnaði heldur gamanið þar sem til stóð að hópurinn héldi heim á leið með lest til Barcelona, en lestarsamgöngur í landinu fór allar úr skorðum sökum rafmagnsleysis. Samgöngumátinn varð rúta í staðinn og kom hún hópnum heilu og höldnu til Barcelona þar sem leiðir hópanna skildu og íslensku ungmennin héldu áfram alla leið heim með ævintýraglampa í augunum, ótal minningar, ný vináttubönd, aukna víðsýni og umburðarlyndi í farteskinu.


ree

 
 
 

Comments


bottom of page