top of page

Skapandi útiverur list- og náttúrumeðferðarnámskeið



ree

Námskeiðinu okkar Skapandi útiverur, list- og náttúrumeðferðarnámskeið fyrir börn með sérþarfir lauk með pompi og pragt fyrir skemmstu.

Íris Lind Sævarsdóttir kennari og listmeðferðarfræðingur, Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi með áherslu á náttúrumeðferð og útivistarþjálfari, Sæunn Sigvaldadóttir þroskaþjálfi og býflugnabóndi og Angelika Liebermeister leikskólakennari, tamingakona og sérkennari í hestamennsku fatlaðra komu að námskeiðinu ásamt aðstoðarfólki.


ree

Námskeiðið samanstóð af fimm síðdegissamverustundum í náttúrunni við Eyvindará þar sem unnið var með frumöflin; vind, vatn, eld og jörð auk þess sem skapað var úr náttúrulegum efniviði úr dýraríkinu. Mikil áhersla var lögð á fjölbreytta örvun og sköpun af ýmsu tagi. Allir tímar hófust á trommuhring sem helgaður var því náttúrufrumafli sem unnið var með hverju sinni og því að sitja saman í hring, tilheyra og leggja sinn takt að mörkum til heildarinnar.


Að auki var farið í tvær lengri ævintýraferðir á laugardögum, fyrri ferðinni var heitið í Hallormsstaðaskóg þar sem hópurinn kynnti sér undraheim býflugnanna, spreytti sig í villieldhúsinu, sat við eldinn eða jafnvel bara lagði sig í hengirúmi milli ilmandi barrtrjáa, svo var auðvitað brugðið á leik, sullað í læknum og skapað úr efniviði skógarins.


ree

Síðari ævintýraleiðangurinn lá alla leið að Geirastöðum í Hróarstungu þar sem við kíktum eftir sel, sáum gæsir á flugi og hreindýr á vappi, kynntumst hestum og brugðum okkur svo á bak. Þar unnust margir sigrar og stórir og brosin og glamparnir í augunum voru í fullu samræmi við það. Milli reiðtúra var ljúft að gæða sér á eldpoppi og glóðaglæddum súkkulaðibálbönunum og skapa og skrifa sögur í sólskininu.


ree

Námskeiðið sem styrkt var af Mennta- og barnamálaráðuneytinu fékk afar góðar viðtökur og ljóst að þörf og áhugi er á fleiri námskeiðum sem þessum.


Látum hér fylgja með ummæli eins foreldris sem segja allt sem segja þarf:

,,Takk kærlega fyrir ykkar frábæra starf. barnið mitt var að elska þetta.

Það þrífst ílla í hópastarfi og á erfitt með að vera án okkar foreldrana eins og skóla,frístund æfingum osfrv. Erum búin reyna ansi margt.

Loksins fannst barninu það tilheyra og elskaði að fara í Nátturuskólann og fann sig loksins.

Er mikið nátturubarn og vill helst alltaf vera úti og brasa og að hafa svona starf fyrir svona krakka er ómetanlegt."


ree




 
 
 

Comments


bottom of page