top of page

Útiverur komnar á kreik


ree

Í haust hóf göngu sína nýtt námskeið í útivistarstarfi Náttúruskólans og UMF Þristar þ.e. Útiverur hópur fyrir 7. bekk og eldri. Þarna eru saman komnir margir af okkar þrautreyndustu Útipúkum sem var farið að vanta nýjar áskoranir og ævintýri sem hæfðu auknum þroska og reynslu.


ree

Hópurinn lét verða nánast sitt fyrsta verk að halda upp í Snæfellsskála og eiga þar sannkallaða óbyggða og ævintýrahelgi. Hópurinn æfði sig að nýta kort og áttavita, gaumgæfa útsýni og örnefni. Fjallasýnin af Bjálfafell hentaði mjög vel til þess arna og þaðan var svo haldið alveg inn að Brúarjökli, veltum fyrir okkur hopun hans, lærðum svolítið um myndum jökla og skrið skriðjökla og nutum þess að vera í návígi við náttúruöflin og öræfakyrrðina.

Þó það blési hressilega þá lét hópurinn sig ekki muna um að breða sér upp að Bergskjá enda fossinn alltaf fallegur sama hvernig viðrar. Þegar degi tók að halla tók skálalífið við. Krakkarnir sáu sjálf um óbyggðamatseld og svo var spilað við kertaljós þar til þreytan yfirbugaði mannskapinn.


ree

Útiverurnar okkar vöknuðu býsna sprækar að morgun, þó það að kúra í myrkvuðum fjallaskálar í um 800 m hæð, í slagviðrisrigningarsudda og stormi hafi verið ný upplifun fyrir margar þeirra.

Morguninn var nýttur í að æfa sig áfram með undratólið áttavitann, prófa neyðartjald, rýna í veðrið og auðvitað leika sér svolítið.

Enduðum svo lærdómsríka ferð í hlýjum skálanum, gripum í spil og sötruðum kakó áður en haldið var aftur til byggða.


Svona ferðir ná að fanga svo ótalmargt; að upplifa ósnortna náttúru, fylgjast með hreindýrahjörð á hlaupum, flugi heiðagæsa, sjá þokusúldina steypa sér niður fjallshlíðarnar, gleðjast yfir sólarglætu og stöku regnboga, dáðst að ótal litbrigðum mosans mjúka, hlusta og finna kyrrðina og andardrátt víðernanna.

Ferðir sem þessar snúast ekki síður um að gefast ekki upp þó á móti blási ( jafnvel ekki þó um sé að ræða mjög blauta og stífa SA átt) , taka ábyrgð á eigin byrgðum, skerpa á nægjuseminni og læra að velja hvað er þess virði að dröslast með og passa vel uppá og hvað er í raun óþarfi, reyna á eigin hæfni og getu og rekast á hvað uppá vantar og unnt er að bæta, búa þröngt fjarri rafmagnaðri afþreyingu og þurfa að taka tillit, finna sér eitthvað til dundurs og að maður er manns gaman. Svo er alltaf jafn merkilegt að leirtaui vaskar sig ekki upp sjálft og hvað síst inn til fjalla.


Takk fyrir móttökurnar Vatnajökulsþjóðgarður.


ree

 
 
 

Comments


bottom of page