top of page

Exploring our Roots - Íslandsheimsókn

Updated: Jun 24

Þá er fimm daga ævintýri með Erasmus ungmennunum okkar lokið eftir afar vel heppnaða Íslandsheimsókn. Nítján ungmenni á aldrinum 14-18 ára spreyttu sig á alls kyns verkefnum í misgóðu veðri og æfðu samvinnu, seiglu og hugrekki sem mun án efa fylgja þeim út í lífið.


Hallormsstaðaskógur, Óbyggðasetrið og Laugarfell var leiksviðið þessa daga þar sem unnið var með náttúrutengsl og náttúrulæsi, fornar verkaðferðir og gildi og hvað við getum lært af fortíðinni um sjálfbærni og hvernig má lifa í fallegri sátt við náttúruna og sjálfan okkur. Dvölin einkenndist af nálægð við náttúruna og á þessum dögum mynduðust dýrmæt tengsl, ekki aðeins við náttúruna heldur einnig milli fólks.

ree

Fyrsti dagur hófst í Hallormsstaðaskógi þar sem reistar voru vistlegar tjaldbúðir og tóku ungmennin öll sem eitt þátt í fjölbreyttum vinnusmiðjum sem sneru að sjálfbærni, náttúrutengslum og handverki. Þau lærðu meðal annars tálgun, eldgerð, brúarsmíði, óbyggðaskyndihjálp og listsköpun úr hrosshári, og matreiddu sjálf yfir opnum eldi. Daginn eftir var haldið í Snæfellsstofu þar sem hópurinn fræddist um náttúru og lífríki Vatnajökulsþjóðgarðs, og fengu sögulega innsýn og ljúffengar veitingar á Skriðuklaustri. Þá var gengið að Hengifossi og dagurinn endaði svo með góðri slökun í Óbyggðasetrinu. Næsta dag var unnið með fornar verkaðferðir á borð við torfhleðslu, ullarvinnslu og trjáhristugerð og rætt um gildi sjálfbærni og nýtni. Eftir heitan mat var unnið með náttúrulegan efnivið og undirbúningur hófst fyrir langferð næsta dags, fossagönguna frá Óbyggðasetri í Laugarfell.


Fossagangan var bæði krefjandi og ævintýraleg og þarna reyndi á þrautseigju hópsins sem mörg hver höfðu aldrei tekist á við svona áskorun. Þau fóru á kláf yfir Jökulsá og fengu að fara á hestbak svo strax í upphafi dags var búið að æfa hugrekkið og teygja á þægindarammanum fyrir ýmsa þátttakendur. Við komu á áfangastað nutu allir góðrar hvíldar í heitum laugum í Laugarfelli við Snæfellsrætur og klöppuðu sér og hvert öðru á bakið fyrir afrek dagsins.

Lokadagurinn hófst svo í sól þar sem haldið var í heimsókn til Geitagotts þar sem rætt var um sjálfbæran búskap, nýtingu dýraafurða og býflugnarækt og að lokum var komið við á Minjasafni Austurlands og horft bæði til fortíðar og inn á við, rætt um lærdóm, rætur, menningu og gildi.

ree

Dýrmætt veganesti til framtíðar


Í lok námskeiðs var farið yfir hvaða lærdóm þau hefðu dregið af Exploring our Roots námskeiðinu í báðum löndum.

Seigla, þolinmæði og ný áhugamál tengd útivist og náttúruskoðun, auk vináttubanda sem teygja sig nú yfir landamæri og menningarheim voru allir sammála um að stæði uppúr. Þau sögðu einnig að þau upplifðu aukið umburðarlyndi og víðsýni gagnvart fjölbreytileika heimsins, hvort sem það sneri að ólíkri menningu, trúarbrögðum, uppvaxtarskilyrðum eða aðbúnaði. Þessi reynsla opnaði augu margra fyrir því hversu ólíkir bakgrunnar geta auðgað samskipti og sameiginlega upplifun. Áberandi var hrifningin á náttúrunni, fölskvalaus og einlæg og með henni hafði greinilega kviknað sterkari vilji til að kynnast henni betur og leggja sitt af mörkum til að vernda hana. Forvitni vaknaði einnig um eigin rætur og hvernig náttúruleg skilyrði, svo sem veðurfar og lífsbarátta, hafa mótað menningu fortíðar og nútíðar. Virðing vaknaði einnig fyrir útsjónarsemi, nýtni og þeirri ótrúlegu verklagni sem eldri kynslóðir sýndu við erfiðar aðstæður, eitthvað sem kom mörgum skemmtilega á óvart. Þessi innsýn varð til þess að margir fóru að líta með nýjum augum á daglegt líf og eigið gildismat. Að síðustu voru aukinn styrkur og sjálfstraust meðal þeirra gæða sem þátttakendur sögðu að námskeiðið hefði gefið þeim.

ree

Íslensku ungmennin sneru til síns heima með skýrari sýn á eigin forréttindi og þakklæti gagnvart náttúrunni. Á sama tíma lýstu spænsku jafningjar þeirra, sem mörg hver eru innflytjendur eða flóttafólk, aukinni færni í ensku og trú á að vingjarnleiki, gestrisni og vinátta sé raunveruleg og aðgengileg í þessum heimi. Sameiginlega höfðu þau öll styrkt tengsl sín í fjölbreyttum hópi og lært að takast á við og yfirstíga brekkur, blaut tjöld og menningarlegar áskoranir með hjálpsemi, bjartsýni, umburðarlyndi og hlýju að leiðarljósi.


Við þökkum öllum þeim sem komu að þessu verkefni með okkur og ekki síst ungmennunum sem sýndu svo sannarlega með jákvæðni, seiglu, útsjónarsemi og skapandi hugsun, að framtíðin er björt.


Myndir og meiri umfjöllun á Facebook Náttúruskólans.

ree


 
 
 

Comments


bottom of page