Fjölskylduævintýri í Loðmundarfirði
- natturuskolinn
- Aug 26
- 2 min read

Náttúruskólinn ásamt Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs átti sérdeilis sólríka og stórskemmtilega Ævintýraferð fjölskyldunnar í Loðmundarfjörð helgina 16. og 17. ágúst.
Lagt var af stað í bítið á laugardagsmorgni og ævintýragjarnir krakkar á aldrinum 3-14 ára ásamt foreldrum sínum, og einum afa (það komu uppi hugmyndir um að afar og ömmur ættu að fara á búnaðarlista fyrir næstu ferð enda þarfaþing þegar kemur að góðum ævintýraleiðangri), brunuðu í Loðmundarfjörð og komu sér vel fyrir í Klyppstaðarskála Ferðarfélagsins.
Veðrið lék heldur betur við hópinn yfir 25°c og sólskin og leiðangurinn vappaði því sporléttur áleiðis í fjöruna við Sævarenda þar sem var hver og einn sullaði, skapaði úr sandi eða sleikti sólskinið af bestu lyst.

Eftir að allskonar sand mannvirki höfðu risið í fjörunni og hver einasta spjör verið rækilega bleytt tölti hópurinn inn að Norðdalsá þar svalir sundgarpar gátu tekið á sundsprett í hyl í ánni. Eftir galsagang og gleði í ánni var kærkomið að koma í skála þar sem hin rómaða Ferðafélagskjötsúpa beið hópsins heit og ilmandi.
Yngri kynslóðin bauð svo uppá kvöldvökudagskrá þar sem troðið var upp með heimatilbúnum skemmtiatriðum, dansi, fimleikatilþrifum, spurningakeppni og að lokum sest við varðeld með sykurpúða, sem þótti fullkominn endir á fullkomnum degi.
Á sunnudagsmorgni var svo haldið af stað til fundar við álfakletta, huldufólksheima og stöku tröll í Miðdal. Fossafegurð í Kirkjuánni lét engan ósnortin og þaðan af síður ævintýralegar klettaborgir þar sem auðvelt var að koma auga á ýmsar kynjaverur.
Auðvitað voru svo teknar sögu- og kúnstpásur af ýmsu tagi og eðlilega þurfti að gera berjamóunum góð skil líka.
Þegar sólbakaðir, berjabláir og glaðbeittir göngurhólfar komu aftur í skála beið þar afmælislummuveisla með öllu tilheyrandi í boði skálavarða, sem var sannarlega rúsínan í pylsuendanum á frábærri ferð.

Í þessari ferð sem og öðrum slíkum unnumst margir sigrar hvort sem þeir fólust í að sýna seiglu upp brekkur, taka tillit til ólíkra ferða- og skálafélaga, læra eitthvað nýtt um náttúruna og heillast af fegurð hennar, troða upp með heimatilbúin skemmtiatriði, sofa fjarri heimahögum í dimmum skála eftir að hafa hlutað á þjóðasagnaarfinn í form drauga- og álfasagna eða bara notið þess að vera úti í náttúrunni víðsfjarri frá skjáum og tilbúinni afþreyingu. Allt saman svo undur dýrmætt og þroskandi.
Comments