Haustannir útipísla og -púka
- natturuskolinn
- 2 days ago
- 1 min read
Útivistarnámskeið Náttúruskólans og UMF Þristar voru vel sótt og viðburðarík í haust.
Útipíslir 1.-2. bekkur og Útipúkar 3.-6. bekkur hafa brasað heil ósköp, vaxið og dafnað undir berum himni. September var vel nýttur í hjólaferðir og þar var heldur betur tekist á við brekkur, mótvind, drullu og ýmis ævintýri og engin ferð með ferðum nema fólk kæmi skítugt og svolítið svangt til baka.
Október nýttist í gönguferðir þar sem saman fór náttúruskoðun og -læsi ásamt þjálfun í því að búa sig í takt við veður og vinda og ganga fallega um landið.
Nóvember var vel nýttur til sköpunar af ýmsu tagi, tálgað, skapaðir prikhestar sem þeyst var á um allar grundir, snjólistaverk og sitthvað fleira leit dagsins ljós.
Desember var helgaður tólgarkertagerð og jólaföndri úr náttúrulegum efniviði, jólasveinar úr kindahornum með ullarskegg, hrossháraskraut og margt fleira.
Núna er komið nýtt ár og höldum við ótrauð áfram í útivistarævintýrum, vonumst eftir snjó til gönguskíðaferða, sleðabruns og snjóhúsagerðar en ef hann lætur á sér standa þá deyjum við ekki ráðalaus en finnum aðrar leiðir til að njóta útiveru og náttúrugleði.
Enn eru laus pláss í hópana eftir áramót en skráningar fara fram á Abler undir Þristur.





Comments