top of page

Jólahefðir í Óbyggðasetrinu

Updated: Dec 11, 2024

Á sunnudaginn síðastliðinn hélt Náttúruskólinn fjölskyldujólastund í Óbyggðasetrinu. Þó veður hafi aðeins verið að stríða okkur, þá mættu yfir 30 manns og nutu dagsins með okkur. Á hlaði Óbyggðasetursins voru búin til tólgarkerti úr hreindýratólg, sem brædd var yfir opnum eldi og hver og einn fékk að spreyta sig með kertaþráð á priki og búa til dýfð tólgarkerti. Fræðsla var um dýrmæti tólgarkerta fyrr á tímum, og hvernig þau voru unninn með fífukveik sem spunnin var saman. Kertin fengu svo að storkna og kólna í kaldri norðanáttinni í Fljótsdalnum meðan mannskapurinn stakk sér inn í hús og tók til við að búa til músastiga og jólakeðjur, gæða sér á jólaeplum og mandarínum. Margir krakkar ráku upp stór augu við að heyra að þetta hefði verið hið eina sanna jólasalgæti fyrr á tímum.


Að sjálfsögðu voru skorin út laufabrauð, og nokkrar aðferðir við skurðinn kynntar og kenndar. Tréjólatrén vöktu líka mikla lukku og einbeitingin skein úr hverju andliti þegar þau voru sett saman, rætt var um hvernig þau voru skreytt fyrr á tímum og ljós tendruð og hvaða þýðingu ljósin  höfðu í skammdegismyrkri gömlu torfbæjanna. Einnig gátu gestir sett saman snjókarla úr tréskífum og skreytt eftir smekk. 


Gestir fengu svo lifandi leiðsögn í gegnum safn Óbyggðasetursins en þar er sýning um lífið í óbyggðum og hvernig fólk lifði í heiðarbýlum oft við krappan kost. Ferðin í gegnum safnið endaði svo á baðstofuloftinu þar sem tók við húslestur úr kvæðum Jóhannesar úr Kötlum um gömlu jólasveinana. Líflegar umræður sköpuðust um hinn ýmsu tæki og tól sem jólasveinarnir sóttust í s.s. aska, þvörur og skyrgáma, en slíkt má einmitt finna á safninu.

Ömmukakóinu góða og jólabakkelsi voru gerð góð skil og þau allra hörðustu brugðu á leik úti í snjónum þó ansi væri norðanáttin napur.


Barnamenningarsjóður styrkti jólastundina og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.




ree
ree


ree

ree

ree


ree


Comments


bottom of page