Rætur og rótarskot
- natturuskolinn
- May 26, 2024
- 2 min read
Náttúru- og listmeðferðarnámskeiðið Rætur og rótarskot er ætlað börnum af erlendum uppruna lauk í dag. Þar hafa þær Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi og náttúrumeðferðarfræðingur og Íris Lind Sævarsdóttir listmeðferðarfræðngur, síðustu vikur fléttað saman aðferðum list- og náttúrumeðferðar til að efla þátttakendur, styrkja tengsl þeirra við íslenska menningu og samfélag, kynna þá fyrir töfrum íslenskrar náttúru og auka á seiglu, sköpunargleði, samvinnuhæfni og sjálfsöryggi.
Námskeiðið sem var styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneyti, Æskululýðssjóði og Múlaþingi tókst afar vel. Tíu börn tóku þátt í námskeiðinu sem samanstóð af þremur ólíkum ævintýradögum úti í fallegri náttúru víðsvegar um Austurland.
Fyrsti ævintýradagurinn fór fram á Djúpavogi þar sem þátttakendur fóru í náttúruskoðun og föruferð, unnu með grímugerð, listsköpun úr náttúrlegum efniviði, bjuggu til skrímsli og skrímslasögur, elduðu undir berum himni og fræddust um sjóinn og lífið í fjörunni.
Annar ævintýradagurinn fór fram í blíðskaparveðri í Skálanesi við Seyðisfjörð. Þar var lögð áhersla á fugla- og hreindýraskoðun, þátttakendur fengu að spreyta sig í hnútum, línuvinnu og klettasigi og unnið með tröllasögur, sem þátttakendur myndskreyttu síðan með penslum sem þau unnu sjálf úr aspargreinum og hrosshári.
Þriðji og síðasti ævintýradagurinn fór fram í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal þar fengu þátttakendur að kynnast íslenska hestinum og bregða sér á bak, gengið var inn að Kleif brunað yfir Jökulsá í Fljótsdal í kláf, náttúran skoðuð í bak og fyrir og svo tölt í dýrindis kjötsúpu í Óbyggðasetrinu. Fræðst um lífið í óbyggðum fyrr á árum, unnið með jarðleir, tálgaðir töfrasprotar og sullað af hjartans list í bæjarlæknum, hlustað á íslenska tónlist í bland við söng heiðagæsa og jarmandi lömb, eldbökuðum veitingum gerð góð skil, myndir málaðar innblásnar af náttúrunni og sögum óbyggðanna og loks látið líða úr sér í heita pottinum og gufunni í Baðhúsinu.
Gleðin skein úr hverju andliti alla ævintýradagana þrjá og þátttakendur voru afar áhugasamir og duglegir. Gaman var að sjá hvernig áræðni í samskiptum og tjáningu jókst jafnt og þétt og ný vináttubönd urðu til.
Comments