,,Svona ættu allir skóladagar að vera“
- natturuskolinn
- Apr 13, 2021
- 4 min read
Updated: Oct 8, 2024

Fellaskóli á Fljótsdalshéraði hefur átt í góðu samstarfi við Náttúruskólann undanfarin ár og segja má að þau séu ákveðnir frumkvöðlar þegar kemur að því að nýta þjónustu Náttúruskólans í kennslu.
Vorið 2019
Útskriftarhópur Fellaskóla sótti Náttúruskólann heim vorið 2019 og undi sér við leik og störf í óbyggðum í tvo daga. Leiðangurinn hófst í Laugafelli þar sem hópurinn fór í æsilegan ratleik með ýmsum þrautum sem reyndu á samvinnu, seiglu og lausnamiðun, þátttakendur fundu sínar leiðir til að kveikja lítinn varðeld við frumstæðar aðstæður, reisa náttúrulistaverk, spreyta sig í rötun, náttúrulæsi og ýmis konar samvinnu. Þátttakendum gafst einnig kostur á að reyna sig í sigi og línuvinnu. Mikið var unnið með og rætt um styrkleika og þátttakendur veltu fyrir sér mismunandi styrkleikum hjá sjálfum sér og öðrum. Að loknum viðburðarríkum útivistardegi var gott að láta líða úr sér í pottinum við kvak heiðagæsanna.
Daginn eftir hélt leiðangurinn áleiðis niður með Jökulsá í Fljótsdal, hina fallegu Fossaleið þar sem margt bar fyrir augu. Hópurinn tíndi gæsaregg sem voru síðar nýtt í vöfflugerð, gengu fram á dautt hreindýr, hlýddu á árnið og fuglasöng og nutu þess almennt að vera til. Þegar komið var niður í Óbyggðasetur var ljúft að gæða sér á heimagerðum vöfflum í baðstofunni og fara yfir þá sigra og áskoranir sem hópurinn yfirstígið saman.
Vorið 2020
Vorið 2020 heimsóttu tveir vaskir hópar nemenda Fellaskóla, annarsvegar á yngsta stigi og hinsvegar á miðstigi, Náttúruskólann og nutu veðurblíðu í Fljótsdal.
Yngri nemendur dvöldu einn dag í Óbyggðasetrinu og segja má að ævintýrin hafi elt hópinn hvert fótmál. Nemendur fræddust um lífið í óbyggðum fyrr á öldum og fannst mikið til koma, rætt var um landsins gang og nauðsynjar og nemendur fengu í gegnum ratleik að spreyta sig á ýmsum verkum sem vinna þurfti á heiðarbýlum fyrri tíma s.s. að sækja vatn í lækinn, jafnvel í lekri skjólu, skola úr ullarplöggum, tína egg úr hreiðrum heiðagæsanna, kveikja eld, hengja silung í reykkofann og rata eftir áttum. Hópurinn lærði jafnframt að tálga og byggja sér skýli úr timurdrumbum og reistu hin myndalegustu híbýli sem nýttust vel til að tylla sér í með eldbakaða lummu. Hópurinn gægðist jafnframt í sauðburð á næsta bæ Egilsstöðum í Fljótsdal og urðu vitni af burði sem eðlilega þótti mikið lífsins undur. Þátttakendur voru afar þakklátir og glaðir með óbyggðaævintýri sín og kvöddu okkur með þeim orðum að þeim liði eins og ,,alvöru sveitabörnum“ og að þetta hefði verið ,,besti skóladagur lífsins“.
Nemendur miðstigs Fellaskóla sóttu Náttúruskólann einnig heim, þyrstir í ævintýri sem þau sannarlega fengu að upplifa. Miðstigshópurinn var í tvo daga hjá okkur og hófu dvölina á því að reyna sig í klettasigi sem var stór sigur fyrir marga, skýlagerð og tálgun þar sem ýmis mannvirki og listaverk litu dagsins ljós. Eftir að hafa gætt sér á hressandi kjötsúpu og hrist sig í hópeflisleikjum, reyndi hópurinn sig í ratleik sem reyndi á náttúrulæsi og gaf þeim kost á að kynnast gömlu verklagi og verkefnum sem nauðsynlegt var að kunna skil á í lífsbaráttu fyrri kynslóða.
Nemendurnir kynnstu sér gang sólarúrs og veltu fyrir sér höfuðáttum og áttavitum, gerðu náttúrulistaverk og reyndu sig í að kveikja eld og elda fyrir opnum eldi sem gekk ljómandi vel og eldlummum, glóðuðum súkkulaði bönunum og ýmiskonar góðgæti voru gerð góð skil.
Seinni daginn var haldið í leiðangur, klyfhestarnir kynntir til leiks og þeir klyfjaðir með eldivið, nesti og öðrum nauðsynjum og haldið meðfram Jökulsánni inn dalinn, á leiðinni virti hópurinn fyrir sér náttúrna sem var að vakna úr vetrardvala, hlýddi á árniðinn, fuglasöng og gæsakvak, ásamt stöku jarmi sem barst úr högum Egilsstaðabóndans. Veðrið lék við hópinn með glampandi sól og blíðviðri og þegar komið var innað Kleif var ekki um annað að ræða en kæla sig og demba sér í lítinn og öruggan hyl við ána, eftir busl og ærsl var tendrað bál á árbakkanum, grillaðar pylsur og góðgæti áður en lagt var upp í næsta legg ferðarinnar sem vitað var að yrði nokkuð æsilegur og myndi reyna á hugrekki, styrk og samvinnu leiðangursfólksins unga, nefnilega að þvera Jökulsá í Fljótsdal í þartilgerðum kláf sem endurreistur var á bökkum árinnar til heiðurs fyrrum ábúendum svæðisins sem reiddu sig mjög á kláfa til að komast leiðar sinnar. Ferðin í kláfunum þótti mikil upplifun enda ekki fyrir alla að draga sig áfram í trékassa sem festur er á víra yfir beljandi stórfjót, en yfir komust öll sem eitt heilu og höldnu og héldu áleiðis á vit álfanna í Gjárhjalla fallegri klettaborg ofar í hlíðunum. Þegar brekkurnar voru hvað brattastar var gott að staldra við íhuga þá styrkleika sem nú reyndi hvað mest á og stappa í sjálfan sig og félaga sína stálinu, samhliða því að njóta útsýnsis sem varð sífellt fallegar eftir því sem ofar dró og toppur sjálfs Snæfellsins blasti við hópnum tingarlegur á svip. Eftir fjallgöngu, nestisbita og klakklausa ferð með kláfnum aftur yfir að Kleif voru klyfjahestarnir beilsaðir á ný og haldið aftur heima að Óbyggðasetri. Hópuinn var á einu máli um að ,,svona ættu allir skóladagar að vera“ og þau hefðu lært og upplifað margt sem aðeins er hægt í náttúrunni en ekki í skólastofu.
Stutt myndband um dvöl Fellaskólakrakka í Náttúruskólanum má finna hér
Comments