Ævintýraferðir fjölskyldunnar Lónsöræfaleiðangur
- natturuskolinn
- Aug 14
- 2 min read

Náttúruskólinn í samstarfi við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, lagði, fyrir skemmstu, upp í leiðangur um Lónsöræfi. Um var að ræða ævintýraferð, fyrir börn og foreldra, sem stóð í fjóra daga þar sem vappað var um á öræfunum fögru.
Þrettán manns þarf af átta börn, á aldrinum 7-14 ára, tóku þátt í ferðinni sem hófst á um 16 km göngu frá Sauðárvatni og í Egilssel, skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, en þar var bækistöð og heimahöfn leiðangursins.
Ferðin sóttist vel, veður var þokkalegt og spenningur í hópnum að komast í næturstað.
Líf í fjallaskála er eitt og sér heilmikil upplifun, reynsla og lærdómur. Þar þarf að lifa þröngt, sækja vatn í lækinn, ekkert þýðir að stinga nokkrum sköpuðum hlut í samband og dagsbirtan verður að duga til helstu verka.
Það fór vel á með hópnum í Egilsseli, spilað og spjallað fram eftir kvöldi.
Næsta morgun var haldið af stað með nesti og ævintýraljóma í augum að Tröllakrókum, gengið var á Tröllakrókahnaus þar sem útsýnið var ægifagurt og því næst fetað eftir brúnum Tröllakróka þar sem hrikaleiki og ævintýralegt landslag engu líkt.
Þegar heim í skála var komið dýfðu einhverjir sveittum göngutám í Kollumúlavatn á meðan aðrir létu líða úr sér innandyra.

Þriðji leiðangursdagur var einnig vel nýttur en þá var haldið niður í Víðidal, á vit fossafegurðar, tóftarbrota og gamalla sagna. Veðrið lék við hvurn sinn fingur þennan dag og þess notið í botn á iðagrænum völlum við skoppandi lækjarhjal. Stuttur og þægilegur göngudagur enda ágætt að safna kröftum fyrir lokahnikk og heimferð.
Fjórði og síðasti göngurdagurinn var tekinn snemma enda drjúgur gangur aftur heim á leið í átt til siðmenningar aftur. Það var þó ekki að sjá á yngstu göngurhrólfunum að það væri stórmál að feta sig aftur rúmalega 16 km dagleið og öll skiluðu sér glaðbeitt í bílana sem biðu þolinmóðir við Sauðárvatn.
Skemmtileg og þroskandi ferð fyrir stóra sem smáa um landsvæði sem er engu öðru líkt og töfrum líkast.

Comments