Ævintýri í óbyggðum í samstarfi við UMF Þrist
- natturuskolinn
- Mar 21, 2022
- 2 min read
Updated: Nov 12, 2024
Í vetur stóð Náttúruskólinn fyrir tveimur helgarnámskeiðum fyrir börn á aldrinum 8-12 ára í samstarfi við Ungmennafélagið Þrist en Þristur hefur á undanförnum árum boðið upp á fjölbreytt útivistarnámskeið fyrir börn og unglinga.
Námskeiðin báru yfirskriftina Ævintýri í óbyggðum og var markmið þeirra að gefa þátttakendum tækifæri til að takast á við skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni útí náttúrunni og efla þannig sjálfstraust þeirra, seiglu, úthald og lausnamiðaða hugsun.
Fyrra námskeiðið fór fram í Fljótsdal í lok október 2021. Þáttakendur gistu í Óbyggðasetrinu og nýttu náttúruna í nágrenni staðarins til fjölbreyttrar útivistar auk þess að læra ýmis praktísk atriði sem nauðsynlegt er fyrir útivistarfólk að kunna. Þátttakendur hjóluðu inn að Kleif í Fljótdal, fóru yfir Jökulsá á kláf og gengi síðan á Gjárhjalla. Þá lærðu krakkarnir jafnframt að nota kort og áttavita, að kljúfa eldivið og kveikja eld, búa til skýli, tálga og hnýta hnúta svo fátt eitt sé nefnt.
Seinna námskeiðið fór fram í febrúar. Upphaflega var gert ráð fyrir námskeiðið færi fram í nágrenni Laugarfells á Fljótsdalsheiði og að þátttakendur myndu gista í skálanum þar en vegna veðurs og ófærðar varð að hverfa frá þeim hugmyndum. Þess í stað var hópnum stefnt í Blöndalsbúð í Eyjólfsstaðaskógi þar sem snjórinn var nýttur til hins ítrasta. Þátttakendur fór í meðal annars gönguskíðaferð, spreyttu sig á gönguskíðaleikjum, byggðu snjóhús og sköpuðu listaverk úr snjó. Þá spreyttu þau sig á útieldun, línuvinnu, ísgerð og rötun auk þess að læra skyndihjálp.
Námskeiðin hluti styrki frá Fljótsdalshreppi og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þau voru bæði afar vel heppnuð og komstu færri að en vildu. Þáttakendur unnu margir hverjir stóra persónulegra sigra og ljóst að útivistarbakterían náði að hreiðra um sig í hjörtum margra þeirra.

Comments