top of page

Útipúkaútilega


ree

Hin árlega vorútilega Útipúka fór fram um helgina og að þessu sinni hreiðraði hópurinn um sig í fallegu skógarrjóðri undir rótum Sandfells í Skriðdal en Ferðaþjónustan á Stóra-Sandfelli tók vel á móti Útipúkum með allt sitt hafurtask.

Vorútilegan er allt í senn uppskeruhátíð, ævintýraupplifun, tækifæri til að fara enn ítarlegar og dýpra í náttúruskoðun og ýmsa fleiri þætti sem við vinnum með í vikulegu Útipúkatímunum okkar og svo er þessi viðburður ekki hvað síst stund hinna stóru og litlu sigra. Hvort sem þeir felast í að sofa í tjaldi, fjarri foreldrum og heimahögum og að þessu sinni í kulda og rigningu, dvelja úti í náttúrunni heilan sólarhring, takast á við allskonar veður með bros á vör og klæða sig eftir aðstæðum, halda utan upp dótið sitt, hugsa svolítið sjálfstætt, deila tjaldi með öðrum og bera sameiginlega ábyrgð á að halda því hreinu og snyrtilegu eða bara vinna með allskonar ólíkum einstaklingum sem allir hafa sína dýrmætu styrkleika.



ree

Allt þetta og meira til fór hópurinn okkar létt með. Helgin hófst eðli málsins samkvæmt á að tjalda og koma sér fyrir, en svo tóku við leikir og náttúruskoðun. Eldgrillaðar pylsur og eðal útieldaður eftirmatur runnu ljúflega niður og gáfu orku fyrir ævintýragöngu um svæðið áður en skriðið var í svefnpokana rétt passlega áður en fór að hellirigna.

Morguninn eftir var heldur léttara yfir og allir skreiddust út úr tjöldunum með bros á vör og tilbúinir í ævintýri dagsins. Þau fólust í fjölbreyttum vinnusmiðjum; Sandfellshestunum var kemt og klappað í bak og fyrir, farið í blóma- og náttúrufræðslugöngu þar sem velt var vöngum yfir hinum ýmsu undrum, tálgun, samvinnuleikir, listaverk og hljóðfæri sköpuð úr náttúrulegum efniviði og svo var auðvitað sullað í læknum, týndir sniglar og almennt lifað og leikið glatt eins og Útipúkum einum er lagið.


ree

Þessi útilega sló lokatóninn í afar skemmtilegan og viðburðarríkan Útipúkavetur og þann fyrsta þar sem við bjóðum uppá námskeið allt skólaárið frá hausti til vors. Það er búið að vera algjörlega stórkostlegt að fá að fylgjast með Útipúkunum okkar vaxa og þroskast í gegnum allskonar ævintýri og áskorarnir í vetur, seigla, samvinna, hugrekki og virðing fyrir sjálfum sér, öðrum og náttúrunni voru í fyrirrúmi að vanda og gaman að sjá uppskeruna af þeirri vinnu. Við erum strax farin að hlakka til að taka upp þráðinn aftur í haust.

Takk fyrir samveruna og ævintýrin elsku Útipúkar og takk fyrir samstarfið UMF Þristur og allir aðrir sem lögðu okkur lið í vetur.

Úti er ævintýri

 
 
 

Comments


bottom of page